Aldrei gefa afslátt á draumunum þínum

Laufey Haralds
Þegar ég fyrst kynntist aðferð markþjálfunar, vissi ég ekki alveg hvað ég var að stíga inn í. Ég hélt að ég væri einfaldlega að læra nýja nálgun, ný verkfæri til að styðja aðra – en það sem raunverulega gerðist var að ég opnaði á dýpri tengingu við sjálfa mig.
Það var eins og aðferðin kallaði fram hluta af mér sem hafði beðið, rödd sem hafði verið þögluð, drauma sem höfðu verið settir til hliðar. Ekki af illvilja, heldur af varkárni. Allt byggt á vananum við að smætta sjálfa mig til að passa inn, vera hófleg, raunsæ, þægileg.
Markþjálfunin kenndi mér að hlusta. Ekki bara á aðra, heldur á mig.
Á það sem býr undir yfirborðinu.
Þrá sem hafði ekki fengið að tala.
Hugmyndir sem voru „of stórar“, „óljósar“, „óþægilegar“.
Draumar sem biðu eftir samþykki, mínu eigin samþykki.
Og eitt stærsta skrefið var að viðurkenna að það þarf ekki leyfi frá neinum öðrum til að elta draumana sína.
Það þarf hugrekki og trú.
Ég lærði að draumar eru ekki eitthvað sem við eigum að mæla í hvað er líklegt eða hvað aðrir telja viðeigandi. Draumar eru það sem hjartað okkar þráir að skapa, það eitt og sér gefur þeim gildi.
Það breytti öllu í minni vegferð þegar ég fór að standa með draumunum mínum, í stað þess að afsaka þá.
Að trúa því að ég mætti vilja. Mætti vaxa. Mætti blómstra, jafnvel þótt það væri ekki alltaf skýrt hvert ég væri að fara.
Aðferð markþjálfunar var lykillinn að því að tengjast þessum sannleika og í dag er það þessi tenging sem ég fæ að miðla áfram til annarra.
Ég hef séð aftur og aftur hvað gerist þegar fólk hættir að gefa afslátt af sér.
Það verður ljómandi. Kraftmikið.
Það fer að lifa, ekki bara „ganga í gegnum“.
Og það er engin tilviljun.
Þegar við fylgjum sannleikanum okkar, þá kviknar lífið.
Aldrei gefa afslátt á draumunum þínum.
Ekki vegna þess að þeir eru fullkomnir eða öruggir, heldur vegna þess að þeir eru hluti af því hver þú ert.
Og þú skiptir máli.
Laufey Haralds

Laufey Haralds
PCC MarkþjálfiLaufey er stofnandi Virkja. Hún starfar sem markþjálfi og leiðbeinandi í námi markþjálfunar.