Heyrum ekki bara, heldur hlustum.
Hver er munurinn á að heyra og að hlusta?
Að heyra er okkur eðlilegt og í raun eðlislægt. Ég heyri hvað börnin mín eru að segja og ég heyri hvað innsæið er að segja mér. Ég heyri og meðtek orð eða vangaveltur, en er ég raunverulega að hlusta? Á þessu er töluverður munur. Oft er það sársauki sem ýtir okkur til að byrja að hlusta af athygli. Eitthvað gerist sem neyðir okkur til að nema staðar, staldra við um stund og virkilega leggja við hlustir. Hlustun er fyrirbæri sem margir þurfa að læra að tileinka sér upp á nýtt á fullorðinsárum, ekki síst þegar hlustunin snýr að þeim sjálfum og snýr að því að hlusta af virðingu á líkamann, líðanina, innsæið, langanir eða drauma.
Það er viðbúið að hlustun okkar „snúi út” og beinist að ytra umhverfi, því við búum í heimi þar sem allt þarf athygli til þess að lifa eða vaxa. Börnin þurfa athygli okkar til að vaxa, dafna og líða vel. Fyrirtækin þurfa athygli til þess að vaxa, því ef þau fá hana ekki lifa þau stutt. Það sama gildir um okkur sjálf, ef við veitum okkur litla sem enga athygli þá smám saman deyr eitthvað innra með okkur. Ástríðan, gleðin, sjálfstraustið eða orkan minnkar og við lendum á stað sem við myndum alls ekki velja meðvitað að vera á. Það er þarna sem við lendum mögulega á vegg og neyðumst til að finna leiðina aftur að okkur sjálfum og móta lausnir til að vekja það til lífsins sem innra með okkur býr. Sú vegferð getur verið stór gjöf inn í líf okkar en við sjáum það ekki endilega á meðan á því stendur. Eitt leiðir þó að öðru og fyrr en varir sjáum við líf okkar í nýju og betra ljósi.
Þú hefur val um að byrja að hlusta áður en þú klessir á vegg. Þú þarft ekki að bíða eftir að lenda á honum, heldur geturðu byrjað strax að beina athyglinni að hlustuninni og því sem býr innra með þér. Hvað skynjar þú ef þú leyfir þér að staldra við, loka augunum og anda?
Að læra að snúa hlustuninni inn á við er þjálfun. Við munum gleyma okkur til að byrja með, hundsa það sem við skynjum og átta okkur svo á því eftir á. Þetta er svolítið eins og að læra að hjóla. Fyrst sjáum við hina krakkana hjóla og það virðist frekar auðvelt. Síðan setjumst við upp á hjólið og það fyrsta sem gerist er að við dettum. Þá eigum við eftirfarandi val. Að setjast upp á hjólið aftur eða telja okkur trú um að við séum ekki þessi „hjólatýpa” og gefumst upp á að reyna. Að æfa sig í að hlusta virkar alveg á sama hátt. Við þurfum að æfa okkur, mistakast, læra af því og prófa aftur og aftur. Þegar við æfum okkur verðum við að hvetja okkur áfram og hafa jafn mikla trú á að okkur takist ætlunarverkið, eins og þykir sjálfsagt að gera þegar barnið er hvatt áfram á hjólinu.
Æfingin skapar meistarann og ætti það ekki að vera vilji hverrar manneskju að vera fær um að hlusta af gagnsemi á sjálfa sig? Sé það raunin er eins gott að byrja þjálfunina strax í dag. Fyrsta æfingin felst í því að beina athyglinni inn á við og spyrja sig góðra og gildra spurninga:
Hvernig líður mér núna?
Hvernig langar mig að líða?
Hvað væri það besta sem ég gæti gert fyrir mig í dag?
Þetta samtal við þig og skrefin sem koma í kjölfarið efla trú þína og traust á eigin verðleika og getu. Þegar taugakerfi þitt, líkami og sál fara að sjá að hægt er að treysta því að þú hlustir og takir skrefin í takt við þá hlustun, þá róast allt innra kerfið. Þú ferð að treysta þér betur með hverjum deginum, vikunum og árunum sem þú æfir þig í þessari hlustun við þig, líkama þinn og innri rödd. Við köllum það að öðlast sjálfstraust.
Hvernig berum við svo kennsl á að við séum að hlusta? Í fyrsta lagi þurfum við að aflæra að allt sé annað hvort alrétt eða alrangt. Vegferð hlustunar er lifandi rannsókn sem felst í því að prófa þig áfram og þekkja muninn á hvenær þú ert að gera hlutina út frá þínu innsæi og hvenær þú ert að gera hlutina einungis til að þóknast öðrum. Til þess að læra verðum við að prófa án þess að dæma, við verðum að vera sanngjörn við okkur sjálf og mæta okkur í sama mildi og við gerum við barnið þegar það stígur upp á hjólið í fyrsta sinn. Stundum þurfum við einhvern aðila til að styðja við okkur á meðan við náum jafnvægi í því sem við erum að vinna að, á sama hátt og barnið sem þarf að fá einhvern sem það treystir til að halda í hjólið fyrst um sinn þar til það nær að halda jafnvægi. Ef við notum þessa myndlíkingu áfram, þá gæti þessi stuðningsaðili verið markþjálfi, sálfræðingur eða annar meðferðaraðili, eða jafnvel traustur vinur eða vinkona. Þú finnur svarið við því innra með þér og finnur djúpt í hjarta þínu hverjum þú myndir vilja treysta til að styðja við þig í áttina að betri tengingu við þig.
Sjálf starfa ég sem markþjálfi og er eigandi Virkja sem býður meðal annars upp á nám í markþjálfun þar sem nemendur mastera umrædda hlustun. Mitt starf gengur út á að hjálpa fólki að komast í tengingu við sjálft sig og byrja að hlusta dýpra á sín innri svör út frá sínum eigin forsendum. Fyrir mig er það mikil gjöf að vera vitni að sérhverri vegferð. Það gefur mér svo mikla trú á fólk og að allt sé í raun hægt, aðeins ef þú vilt velja það.
Finnir þú fyrir áhuga á markþjálfun og markþjálfanámi Virkja þá býð ég upp á fría 20 mínútna námskynningu eða spjall um námið, bæði í gegnum netið eða í persónu. Pantaðu einfaldlega tíma á vefsíðunni okkar: www.virkja.is
Kærleikskveðja frá Laufeyju.