Nám í markþjálfun er fyrst og fremst fyrir ÞIG. Þú ert verkfærið.

Image Description

Laufey Haralds

Það sem kemur flestum nemendum á óvart er að lærdómurinn er svo miklu meiri og dýpri en þeir bjuggust við í fyrstu. Hver og einn skráir sig í nám í markþjálfun með ákveðnar væntingar en svo kemur á daginn að námið býður þeim upp á mun djúpstæðari þekkingu á þeim sjálfum en væntingar stóðu til.

Nemendur koma inn í námið á sínum eigin forsendum, sumir á einhverskonar tímamótum og í mikilli sjálfsskoðun en aðrir til að efla sig í starfi og ná sér í nýja þekkingu. Það sem nemendurnir eiga sameiginlegt er að allir eru þeir manneskjur sem hafa ástríðu fyrir því að hafa jákvæð áhrif á líf sitt og annarra. Þeir hafa trú á fólki og vilja sjá hve mikil áhrif máttur markþjálfunar getur haft á vegferð þeirra sem nýta sér aðferðina.

Það sem einkennir okkur hjá Virkja er fagmennska, dýpt og alúð. Fagmennskan skín í gegnum það sem við gerum og hver við erum, og birtist í meðvitund okkar og vandvirkni í öllum þáttum námsins. Hver og einn nemandi skynjar alúð og ástríðu okkar fyrir töfrandi aðferðum markþjálfunar. Við erum teymi sem hefur mikla reynslu í faginu, bæði sem leiðbeinendur í markþjálfanámi og sem gæðavottaðir markþjálfar. Við höfum öðlast viðurkennda færni í að kafa með nemendum á dýptina og leyfa þeim að upplifa töfra markþjálfunar á eigin skinni.

Teymi Virkja leggur upp úr því að hver og einn nemandi öðlist djúpan skilning á sjálfum sér og fái tækifæri til að stilla eigin strengi, hvort sem er til að öðlast betri líðan, meira orkuflæði eða ríkara traust á sjálfum sér. Sú sjálfsvinna hefur í kjölfarið bein áhrif á það hvernig nemandinn þróast sem markþjálfi, þar sem hann er sjálfur verkfærið.

Markþjálfinn lærir að beita djúpri hlustun á sig og aðra. Því meiri hugarró sem markþjálfinn öðlast samhliða, því dýpra nær hlustun hans. Hlustunin verður þannig til með fínstillingu innra með markþjálfanum sjálfum.

Hugarfarslegt hlutleysi markþjálfans skiptir máli og felst í því að geta mætt einstaklingi án þess að dæma hann á nokkurn hátt. Að treysta því fullkomlega að hver og einn einstaklingur sé sérfræðingur í sjálfum sér, er ákveðið hugarfar sem nemendur í markþjálfun læra að tileinka sér.  Það hugarfar smitast svo yfir á önnur hlutverk í lífi þeirra sjálfra.

Þegar við finnum fyrir sjálfsöryggi sem manneskjur, stafar sú orka óhindrað frá okkur og það sama gildir um trúna á okkur sjálf. Þess vegna er í því fólgin mikil gjöf að fá að leiða nemendur í slíkt ferðalag í áttina að persónulegu jafnvægi, sátt og vellíðan. Við trúum að með þeim hætti náum við að skapa áhrifaríka markþjálfa sem eru tilbúnir til að hafa jákvæð áhrif á líf annarra.

Við erum öll með það sem þarf til þess að skapa okkar völdu framtíð og okkur getur liðið vel ef við veljum að trúa því og gefa eftir inn á þær brautir. Markþjálfanám Virkja er stofnað með vissu um að kraftaverkin geta gerst og að allt er mögulegt. Sú vissa er byggð á mikilli reynslu þeirra leiðbeinenda sem starfa hjá Virkja og vinna af fullum krafti í faginu. Þeir hafa séð ótrúlegustu umbreytingar á fólki í gegnum markþjálfun sem svo hefur jákvæð mælanleg áhrif á aðra þætti í lífi þess.

Markþjálfun gengur út á að hjálpa fólki frá þeim stað sem það er á núna og yfir á þann stað sem það vill vera á en kemst ekki einhverra hluta vegna án aðstoðar. Markþjálfinn er þá liðsmaður á þeirri vegferð. Markþjálfun er fyrir einstaklinga sem eru á þeim stað í lífinu að þeir treysta sér til að taka ábyrgð á sínu eigin lífi og velferð, finna fyrir löngun til að taka stefnuna í eigin hendur og lifa út frá sér og á sínum forsendum. Markþjálfinn styður þá við hvern og einn alla leið í slíku umbreytingarferli.

Markþjálfinn hjálpar hverjum einstaklingi að finna svörin sem búa ávallt innra með honum og einblínir á það sem viðkomandi vill að vaxi og stækki í sínu lífi. Margir eru afar meðvitaðir um það sem þeir vilja ekki en markþjálfinn hjálpar þeim að verða sérfræðingar í því sem þeir raunverulega vilja að verði að veruleika og að finna leiðina í áttina að því.

Í markþjálfun fær sá sem hana þiggur djúpa hlustun, kraftmiklar spurningar sem vekja hann til vitundar og hlutlausa speglun sem gefur honum tækifæri á að sjá sig á dýpri hátt en áður. Í markþjálfun verður alltaf til einhver nýr lærdómur, ný sýn eða dýpri vissa á einhverju innra með viðkomandi eða í ytri þáttum lífs hans.

Þetta innra ferðalag sem markþjálfun býður upp á er verðmætt fyrir nemandann og hefur jákvæð áhrif á hans persónulega líf, hvort sem hann ákveður að starfa sem markþjálfi eða ekki. Það er algengt að ásetningur nemandans sé einn áður en hann kemur í námið en umbreytist á leiðinni þegar hann sér hvernig hann getur stækkað möguleika sína. Að ferðalagi loknu getur nemandi svo ákveðið með meiri vissu hvað hann vill gera við lærdóminn og þekkinguna sem hann hefur öðlast.

Við hjá Virkja erum stuðningsmenn þess að fylgja hjartanu og innsæinu. Við trúum því að ávallt séu til leiðir og lausnir þegar hjartað segir JÁ.

Ef þú finnur fyrir áhuga og vilt vita meira um markþjálfanám Virkja þá bjóðum við upp á fría 20 mínútna námskynningu eða spjall um námið, bæði í gegnum netið eða í persónu. Við bjóðum þér að panta tíma á vefsíðunni okkar: www.virkja.is

Við hlökkum til að sjá þig!


Image Description

Laufey Haralds

PCC Markþjálfi

Laufey er stofnandi Virkja. Hún starfar sem markþjálfi og leiðbeinandi í námi markþjálfunar.