Ómeðvituð viðhorf ráða því hvernig þér líður
Andri Birgisson
Enginn upplifir heiminn eins og þú. Jafnvel þótt aðstæður og atburðir séu þeir sömu fyrir alla, er upplifun hvers og eins einstök. Upplifun er í grunninn persónuleg túlkun á veruleikanum. Öll túlkun er í raun rétt í ljósi þeirra forsendna sem liggja að baki. Það þýðir þó ekki að hún sé sönn eða byggi á staðreyndum. Það sem skiptir meira máli er gæði túlkunarinnar – hvernig hún hefur áhrif á okkur.
Við getum upplifað heiminn á fjölbreyttan hátt – allt frá því að vera óbærilegur yfir í að vera óaðfinnanlegur. Þótt fáir vilji upplifa óbærilegan veruleika, þá gerist það oft, jafnvel hjá okkur sjálfum. Þetta leiðir okkur að ákveðnum sannleika: Atburðirnir sjálfir eru hlutlausir gagnvart upplifun okkar á þeim. Þetta þýðir að við getum ekki kennt ytri veruleikanum um líðan okkar eða vandamál. Grunn hugmyndir okkar um hvernig heimurinn virkar móta upplifun okkar og geta ýmist verið eflandi eða gert okkur valdalaus gagnvart honum.
Ef þú trúir því að vandamálin þín stafi af ytri aðstæðum, gerir þú sjálfan þig að fórnarlambi. Þú munt alltaf finna orsökina utan sjálfs þíns og leita lausna þar. Með því að halda í þessa trú heldur þú áfram að vera fangi þeirra viðhorfa sem þessi hugmynd skapar. Þú munt ekki geta losað þig úr því viðhorfi nema þú endurskoðir það.
Við höfum öll ómeðvituð og óskoðuð viðhorf sem hafa áhrif á tilfinningar okkar, hugsun og hegðun. Sum þeirra eru hlutlaus eða jafnvel hjálpleg í ákveðnum aðstæðum. Önnur eru gagnleg vegna þess að þau leyfa okkur að nýta innri orku okkar til uppbyggingar og vaxtar. Til dæmis eru sumir bjartsýnir að eðlisfari, sem gerir þeim auðveldara að finna lausnir og sjá tækifæri í erfiðleikum. Uppskeran er árangur og vöxtur. Bjartsýni skapar ekki vandamál og því er engin ástæða til að losa sig við hana.
En það eru viðhorfin sem valda niðurbroti í lífi okkar sem við þurfum að vera meðvituð um. Við getum skipt þeim út fyrir sjálfgefin viðhorf – viðhorf sem við veljum meðvitað. Sjálfgefin viðhorf verða að vera svo rótgróin að við beitum þeim án áreynslu eða meðvitaðrar fyrirhafnar. Með tímanum verða þau að hluta af okkar eðlislægu viðbrögðum.
Líklegt er að þú hafir ekki meðvitað valið þér öll þau viðhorf sem þú býrð yfir. Þú hefur tileinkað þér þau í gegnum lífsreynslu og skilgreiningar sem þú hefur mótað. Þessar skilgreiningar nota þú til að álykta og dæma atburði í lífi þínu. Þær eru eins konar módel sem þú notar til að skilja heiminn – eða jafnvel misskilja hann. Hins vegar ættu þessi módel ekki að vera rituð í stein. Ef þau eru ekki endurskoðuð reglulega munu þau hindra vöxt og andlegan þroska. Til dæmis gæti manneskja, sem átti slæma reynslu í skóla sem barn, þróað með sér viðhorf um að allir skólar séu leiðinlegir eða skaðlegir. Þessi skilgreining gæti komið í veg fyrir frekari menntun á fullorðinsaldri og takmarkað þroska hennar.
Þeir sem bera fordóma gagnvart ákveðnum kynþáttum, kynhneigðum eða trúarhópum hafa þróað fastmótaða skilgreiningu sem viðheldur neikvæðum viðhorfum, ótta og jafnvel hatri. Slíkar skilgreiningar halda okkur föstum í lágri lífsorku.
Ótti er einfaldlega birtingarmynd eða upplifun af lágri lífsorku. Ef ótti er viðvarandi ástand dregur hann úr okkur máttinn. Við gætum líka sagt að hann dragi fram það versta í okkur. Þú þarft þessa orku til þess að viðhalda lífi í þessum heimi og ef þú vilt auka lífsgæðin þín þarftu að læra að stjórna orkuflæðinu þínu eða réttara sagt hætta að hindra orkuflæðið þitt.
Allar skilgreiningar þjónuðu einhverskonar tilgangi þegar þær voru mótaðar. Allar erfiðar upplifanir þjóna þeim tilgangi að leyfa okkur að læra af þeim og þroskast. Það er fyrst þá sem við hættum að þurfa þær. Lærdómurinn felur í sér að endurkoða skilgreiningarnar okkar, leggja þær niður og frelsa okkur frá þeim og mynda þannig rými fyrir sjálfgefin viðhorf.
Andri Birgisson
Markþjálfi