Töfrarnir í því að tengjast útkomunni
Laufey Haralds
Töfrarnir í því að tengjast útkomunni þar sem allt fer á besta veg og áskorunin að halda tengingunni tærri.
Markþjálfunaraðferðin
Ein af töfrum markþjálfunaraðferðarinnar er að hjálpa einstaklingnum að átta sig á því hvað hann raunverulega vill, langar og dreymir um.
Til að komast á þann stað þarf að ryðja burtu gamlar hugmyndir, viðhorf og efasemdir sem hafa minnkandi áhrif á draumana okkar og hugmyndir okkar um hvað er mögulegt, hvað er raunhæft eða hvað við eigum skilið. Þetta ferli er rannsókn og í raun sjálfsskoðunarferðalag sem einstaklingurinn, sem leitar til markþjálfa, hefur samþykkt að fara í. Markþjálfinn er svo þjálfaður í að styðja slíka vegferð.
Hlutverk Markþjálfans
Markþjálfinn sér um að búa til öruggt rými fyrir einstaklinginn til að skapa á þennan hátt. Hann er sérfræðingur í virkri hlustun, sem gerir það að verkum að hann heyrir meira, víðar og dýpra í því sem er sagt og gert í samtalinu. Án þess að dæma speglar hann viðkomandi á hlutlausan hátt og spyr kraftmikilla spurninga í stað þess að álykta eða ákveða nokkuð fyrir viðkomandi.
Valdeflandi Ferli
Þessi nálgun er virkilega valdeflandi og hjálpar einstaklingnum að uppgötva sína vaxtarmöguleika með því að tengjast þeim kröftum sem innra með honum búa, fá að rísa inn í sitt sjálfstraust og öryggi og finna að þá er svo miklu meira sem við getum og vitum um okkar völdu vegferð.
Það er ákveðin list eða hæfni að hjálpa einstaklingnum að komast fram hjá þeim hugmyndum sem fyrir voru, hugmyndir sem fæddust í fortíðinni af gamalli reynslu eða út frá gömlum upplifunum. Hugmyndir sem fæddust á leiðinni í þeim tilgangi að vernda okkur yfir erfið tímabil, en þegar við verðum fullorðin þá er það í okkar eigin höndum að endurskoða og endurforma hugmyndir okkar um okkur sjálf og umheiminn í heild sinni. Við umbreytum hugmyndum okkar í samræmi við þann veruleika sem við viljum stefna að.
Framtíðin er ekki fortíðin
Það er mín einlæga trú og vissa að fortíðin þarf ekki að vera eins og framtíðin og að hver og einn hefur allt sem þarf til að hafa jákvæð áhrif á sitt eigið líf og komandi veruleika. Það er í raun ekkert annað en hugmyndir okkar úr fortíðinni sem lita framtíðina. Þannig að ef við viljum ekki að framtíðin sé eins og fortíðin, þá þurfum við að endurskoða og jafnvel breyta hugmyndum okkar í framhaldinu.
Áskoranir á Vegferðinni
Þessi umbreytandi vegferð sem felst í því að tengjast okkur sjálfum á dýpri hátt og lifa út frá því er ekki alltaf auðveld.
Þegar við veljum að beina athyglinni inn, leyfa okkur að sjá og skoða, gætu fylgt allskonar áskoranir. Allt í einu finnum við fyrir mikilvægi þess að standa með okkur sjálfum í fleiri aðstæðum, lifa út frá okkar sannleika, heiðarleika og sátt, brjótast út úr vana hugsun og hegðun sem hefur eyðileggjandi áhrif á okkar völdu vegferð, og viljum oftar en ekki hlúa að okkar hugsanagangi og innri samskiptum til að líða betur í okkar eigin skinni.
Þegar við höfum fengið rými og hlustun til þess að móta okkar völdu framtíð út frá okkar eigin forsendum og draumum, skapar það tækifæri til að upplifa dýpri lífsfyllingu og þroska. Þessi framtíð hefur að geyma ákveðna draumalíðan þar sem þú færð að vera meiri þú sjálf/ur, draumasýn bæði á innri og ytri veruleika sem þú upplifir innihaldsríkt, gefandi og eftirsóknarvert.
Halda Tengingunni
Þegar þessi mynd skýrist er áskorunin að halda tengingunni á milli þín í núinu og þín í þessari draumamynd, finna hana, trúa henni og taka eftir togkraftinum sem hún gefur þegar tengingin er tær. Það sem tekur tærleikann úr tengingunni og minnkar þar af leiðandi togkraftinn eru efa hugsanir, minnkandi hugmyndir um hvað þú átt skilið eða hvað þér finnst raunhæft út frá fyrri sögu.
Auðvitað bankar efinn reglulega í umbreytingarferlinu, en iðkunin okkar á leiðinni er að þjálfa okkur að beina athyglinni frekar fram á veginn, tengjast draumaútkomunni reglulega og þjálfa þá eiginleika sem við viljum að vaxi í stað þess að eyða orkunni í innri niðurbrot. Þetta er vaxtarferli sem gengur út á uppbyggingu, þess vegna viljum við efla og styrkja þá parta innra með okkur sem styðja við það ferðalag.
Kraftaverk Með Meðvitund
Með aukinni meðvitund og eftirfylgni gerast kraftaverkin. Veruleikinn, líðanin og sýn þín fer að taka á sig nýja mynd sem breytir allri upplifun þinni á lífinu sjálfu.
Þessi vegferð er mjög gefandi þótt vissulega mæta okkur áskoranir sem við förum hægt og rólega að sjá sem tækifæri til að standa sterk í okkur sjálfum. Lífið er sífellt að koma okkur á óvart. Prófum að búast við því besta ávallt í öllum aðstæðum, leyfa okkur virkilega að trúa að allt er eins og það á að vera og að áskoranirnar eru þarna fyrir okkur til að vaxa og gefa okkur tækifæri til að standa með okkur á sterkari hátt en áður.
Lokahugleiðing
Ég vil sendi þér mikinn kærleik og fallega strauma inn í þína vegferð.
Mín trú er að, ef hvert og eitt okkar tökum skref í áttina að okkar hjarta, ástríðu eða draumum, gerum við saman heiminn örlítið betri með hverjum deginum því þá geislar af okkur gleði og hamingja sem smitar út frá sér án nokkurra orða, bara nærveru. ❤️
Áfram við!
Höfundur: Laufey Haralds, PCC markþjálfi, eigandi og stofnandi Virkja.
Laufey Haralds
PCC MarkþjálfiLaufey er stofnandi Virkja. Hún starfar sem markþjálfi og leiðbeinandi í námi markþjálfunar.